Glapræði

Skilmálar IMF hafa einungis breyst að forminu til undanfarið.  Í stað þess að áður var yfirlýst "one size fits all" stefna þá er hún núna bara falin.  Fyrsta breytingin sem varð eftir að menn urðu að viðurkenna að þetta virkaði ekki var í meginatriðum sú að bætt var skilyrðum um lýðræðisvæðingu ofaná efnahagspakkann sem fyrir var.  Þegar það dugði ekki til að halda andlitinu varðandi "one size fits all" stefnuna varð breytingin sú að stjórnvöld í hverju landi sem leita til bankans gera nú áætlun um hvernig þau skuli ná sér út úr vandanum. Þau skila inn svokölluðu PRSP (Poverty Reduction Strategy Papers).  Þetta hljómar vel en reyndin er sú að þessa áætlun þarf IMF að samþykkja og hugmyndafræðin innan IMF hefur lítið eða ekkert breyst.  Hugmyndafræðin er, eins og hún hefur alltaf verið, algerlega undir stjórn Bandaríkjanna.  Þar kemur reyndar meira til en hið augljósa misræmi í atkvæðum en Bandaríkin hafa þar langmest atkvæðavægi eða tæp 17% meðan flest ríki eru með langt innan við 1% (enda ríkin hátt í 200).  Bretar, Japanir, Þjóðverjar, Frakkar og fleiri vel stæðar þjóðir eru þó með um og yfir 5% svo enn verður minna til skiptana fyrir hina.  Atkvæðavægi fer sem sagt eftir efnahag.  Löndin sem helst þurfa aðstoð ráða því yfirleitt litlu sem engu um starfsemi og stefnu sjóðsins.  Atkvæðavægi Íslands er 0.06%. (http://www.imf.org/external/np/sec/memdir/members.htm)

Reyndin er sú að enn er við lýði sú stefna hjá sjóðnum sem leikið hefur mörg þróunarlöndin grátt og verið hefur að falla um sjálfa sig um allan heim undanfarið: Frjálshyggjan.  Uppskriftin er sú að einkavæða, taka upp flotgengi og almennt sjálfstæði seðlabanka, draga úr ríkisútgjöldum svo sem í mennta- og heilbrigðismálum og fleira þeim þessum dúr.  Við erum svo sem búin að gera margt af þessu ótilneydd og þannig lukkast það örugglega betur ef á að gera það á annað borð.  Ég mundi fyrir mitt leyti þó vilja leita annarra og nýrra leiða.  Við þurfum ráðrúm til að vinna úr mistökunum sem gerð hafa verið hingað til áður en við fetum sömu leið tilneydd af IMF. Við þurfum svigrúm fyrir tilraunir með aðra og nýja hluti.

Ég get svo sem ekkert um það fullyrt að Ísland geti ekki fengið einhverja sérmeðferð þarna sem hluti af vesturlöndum.  Mig minnir að Bandaríkin hafi jafnvel fengið eitthvað sérúrræði þarna fyrir skömmu - og skyldi engan undra miðað við vægi þeirra og vinaþjóða innan sjóðsins.  Ég er hins vegar ekki trúaður á að Ísland fengi slíka meðferð, komandi til sjóðsins í svipað vonlausri stöðu og Glitnir til seðlabankans þ.e.a.s án útgönguleiðar, og einnig í ljósi afstöðu Bandaríkjamanna og Breta til kreppunnar hér á landi hingað til.

Ég vara eindregið við því að fara með einhverja glýju í augunum undir verndarvæng stofnunar eins og þessarar.  Sumir virðast vilja gera það á þeim forsendum að íslenskir ráðamenn séu spilltir, óhæfir og vonlausir.  Það má vel vera að svo sé, en ef við erum svo ráðalaus hér heima að geta ekki ráðið við litlar samtryggingarklíkur eins og stjórnmálaflokkana og viðskiptagengin þá er alveg öruggt að við höfum engin ráð gegn klíkuskapnum í IMF - eða ESB ef því væri að skipta.  Hugmyndafræðin sem hrynur þessa dagana er ekki upprunnin á Íslandi.

Úthýsing (out-sourcing) á stjórn ríkisins er versta mögulega leið til þess að vinna gegn spillingu heimafyrir.  Hún er ekki ráð heldur uppgjöf.  Við eigum nóg af góðu fólki og við fáum ekki viðráðanlegri spillingu en þá sem kann að ríkja á Íslandi í dag.  Við þurfum bara að standa saman almenningur og gera eitthvað í málunum.  Til er ég.


mbl.is Vill fá aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála, við meigum ekki stökkva á einhverja töfralausn í algjörri örvæntingu. Við höfum enþá ekki notfært okkur samningana sem gerðir voru við frændur okkar á norðurlöndum og enn hefur ekki komið í ljós hvort við fáum rússalánið svo ég held að aðstoð frá IMF ætti að vera algjört last resort.

Holger (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband