Hvað var Vilhjálmur að vilja?

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins og einn aðal talsmaður þess að Ísland leiti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), mætti Ögmundi Jónassyni í Kastljósinuí gærkvöldi og tala fyrir þessari skoðun sinni.  Maður hallast að því að hann, sem fyrrum stjórnarmaður IMF, hljóti að vita betur en margir aðrir og ég var því spenntur að heyra hvað hann hefði bitastætt fram að færa.

Hér fer svo til orðrétt partur úr viðtalinu: (ég nenni ekki að eltast við þegar þau tala hvert ofan í annað.)

Vilhjálmur: "Bara til þess að tala um Argentínu, þróunarlöndin og öll þessi lönd.  Sko, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki skapað eina einustu krísu í einu einasta landi.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hins vegar komið inn og reynt að aðstoða þjóðir og koma þjóðunum út úr því ástandi sem að þær voru komnar í."

Jóhanna Vilhjálms: "Það eru nú deildar meiningar um það"

Vilhjálmur: "Nei. Nei, nei, nei, nei,. Það eru engar deildar meiningar um það.

Jóhanna: "Hvernig geturðu haldið því fram?"

Vilhjálmur: "Af því, það eru engar deildar meiningar um það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki búið til eina einustu krísu í einu einasta landi."

Ögmundur: "Þetta er alrangt Vilhjálmur."

Vilhjálmur: "Nei, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki beðið eitt einasta land um það að fá að koma inn."

Þvílík ósvífni.  Hvað er maðurinn að vilja með svona tali?  Hann hengir sig í það tæknilega atriði að IMF komi ekki að málum fyrr en að í einhvers konar óefni sé komið. Hans skilningur er sá að ef komin er upp krísa þá sé ekki lengur hægt að skapa krísu.  Leiti maður til læknis með kvef, fái við því ólyfjan og endi með hjartastopp af henni, þá er í skilningi Vilhjálms ekki hægt að halda því fram að læknirinn hafi verið valdur að veikindum manns.  Maður var jú veikur fyrir - með kvef.

Þetta styrkir samt kannski enn frekar það sem ég sagði í síðustu færslu, um einstrengingsháttinn í stefnu IMF.  Þarna kemur gamall stjórnarmaður IMF og lætur í það skína að störf IMF séu svo að segja óumdeilanleg - ekki aðeins óumdeild heldur einmitt óumdeilanleg.  Tregðan hjá IMF hefur verið gífurleg við það að horfast í augu við árangursleysi og slæmar afleiðingar gjörða sinna, en gagnrýnisraddirnar hefur ekki skort.  Haldin hafa verið fjöldamótmæli gegn þeim og þeirra skilyrðum víðsvegar um þriðja heiminn án þess að hátt fari um í vestrænum fjölmiðlum.  Mýgrútur af greinum og bókum hefur einnig verið skrifaður.  Getur það verið að ekkert af þessu nái inn á borð stjórnar IMF? Þá er sjóndeildarhringurinn þröngur.

Það stendur áfram að ef við verðum að leita til IMF þá vonast ég bara til þess að skilyrðin verði léttvæg eða engin.  Þó að ekkert í sögu stofnunarinnar síðustu árin bendi sérstaklega til þess, þá er staðan hér ólík öðrum sem leitað hafa til sjóðsins auk þess sem að alvarlega kreppir um allan heim að þeirri hugmyndafræði sem sjóðurinn byggir á.  Þrátt fyrir hættu á þvermóðskufullrum tilraunum innan sjóðsins við að halda í gömlu stefnuna má segja að eitt af því sem gæti hjálpað til sé það að erfitt yrði fyrir sjóðinn að verja aðgerðir sínar í öðrum löndum ef aðgerðir þeirra í því landi sem efst var á lífsgæðalista Sameinuðu Þjóðanna (HDI - menntun, lífslíkur og landsframleiðsla per mann) í fyrra falli alvarlega og ekki ná sér á strik aftur þrátt fyrir aðkomu þeirra, og eftir að hafa sjálfviljugt tekið upp mörg af helstu læknisráðum sjóðsins áratuginn á undan.  Þá færi að vera erfitt að neita þeirri kröfu að skuldum verði aflétt af þróunarríkjunum skilyrðislaust sökum þess hvernig stofnað var til þeirra og hvernig þeim er viðhaldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband