"Sterkur meirihluti"

Í síðustu alþingiskosningum veltu menn því fyrir sér hvort meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks yrði nógu sterkur. Nú upp á síðkastið hafa ýmsir dregið þá ályktun af hamaganginum í borginni að eins manns meirihluti þar sé ekki nógu sterkur meirihlut.  Nú þurfum við "sterkan meirihluta" í borgin heyrist kastað hér og þar.

 

Ég velti frekar fyrir mér hlutverki meirihluta og hvernig hann lítur á valdumboð sitt.  Mér fannst merkilegt hvað þurfti að skipta út miklu af fólki í nefndum og ráðum um leið og kjörnir fulltrúar skiptu liðum upp á nýtt tvisvar sinnum nú með stuttu millibili.  Er "hollusta" allra við flokkana en ekki borgarana?  Var enginn hæfur til að sitja áfram eða bara ekki af réttum lit?

 

Svo eru allir sammála meira eða minna um öll mál.  Ef menn eru ekki sammála þá virðist í það minnsta algerlega ómögulegt að festa hönd á í hverju ágreiningurinn felst og fá botn í hann.  Oft virðist hann bara vera settur upp til að "skapa sérstöðu," og á endanum er kannski eina málið sem augljós ágreiningur er um það að skilgreina og skilja á milli skoðana "okkar" og "þeirra".  Það er ágreiningur sem allri fulltrúar þekkja og geta talað fjálglega um - út frá sínu þrönga sjónarhorni.

 

Hvað er sterkur meirihlut? Og til hvers þarf sterkan meirihluta?

 

Má ekki eins tala um veikan minnihluta?  Til hvers þarf veikan minnihluta?

 

Er það ekki hin hliðin á sama peningnum?  Hvers á veikur minnihluti að gjalda?

 

Endurspeglar "veikur minnihluti" aldrei skoðanir "meirihluta almennings" í einstökum málum?

 

Skipta skoðanir meirihluta almennings annars máli, þegar "sterkur meirihluti" er við völd?

 

Hefur "veikur minnihluti" aldrei á réttu að standa?  Eða skiptir það kannski ekki máli hafi hann ekki stuðning almennt séð við fulltrúa sína og heildarstefnu?

 

Hverjar eru röksemdirnar á bak við meirihluta og minnihluta skiptingu milli kjörinna fulltrúa.  Er ekki nóg að vera búin að varpa mengi skoðana alls almennings yfir í lítinn hóp fulltrúa með þeim ófullkomna hætti sem kosningar eru, þurfa þeir svo í þokkabót að mynda klíkur sín á milli?  Ég hefði haldið að ein af haldbestu röksemdunum fyrir því að láta lítinn hóp fulltrúa fara með vald borgaranna væri sú að þeir geti á raunhæfari hátt rætt mál sín á milli og komist að sátt um þau.

 

Það þurfa ekki alltaf að vera tvö mörk á vellinum, hvað þá tvö lið.


Sjálfsmorðsárás í Illinois

Þá er enn ein sjálfsmorðsárásin búin að eiga sér stað í Bandaríkjunum: http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/02/15/sjo_latnir_i_illinois/

Það góða við árásirnar sem gerast í USA og annarsstaðar á vesturlöndum er að þar eiga í hlut einstaka svartir sauðir sem klikkast eitthvað.  Hinir eru allir í lagi.

Í miðausturlöndum getur hins vegar hver sem er tekið uppá þessu.  Þeir eru algerlega óútreiknanlegir.  Allir.  Enda erfitt að þekkja þá í sundur.

Og það sem verra er, þar eiga þeir það til að gera þetta fyrir málstað.  Á fólk sér ekkert líf? Málstað. Pifff...

Það er reyndar alvarlegt mál þegar fólk er farið að sprengja sig í loft upp fyrir málstað.  Það er þá sem fólk er orðið virkilega hættulegt.  Þá áttar maður sig á því að maður er skotmark.  Það er ekkert handahófskennt við það lengur.  Fólkið er hreinlega á móti okkur og okkar frekju... ég meina lífsháttum.

Varið ykkur á þeim.

Verið hrædd... Öðruvísi er ekki hægt að halda hryðjuverkastríðinu áfram.

Nei, annars.  Ég sé ekki mikinn mun á því að setja utanum sig sprengibelti og taka nokkra með í fallinu, eða því að taka upp byssu til hins sama.  Bæði er auðvitað algerlega óréttlætanleg frekja.  Það má reyndar segja um fleiri mannanna verk, og væri ágætt ef réttu ljósi yrði nú beint að þeim einhvern tíma fljótlega - svo sem stríðsrekstri og alls kyns þvingunum í heimspólitíkinni.


Ein jörð, eitt mannkyn

Þetta finnst mér flott:

"I think there’s only one morality that rules the future and that is the sense that we’re all in this together: this is one world, we are one species. We have no prospect of finding another planet like this one and therefore we need an earth-centred ethic, that values people, cultures, organisms and sees the whole as a brilliant and precious evolving reality. Our job is to be stewards of that process; not as masters, and certainly not as destroyers."

Síðan sem þetta er tekið af er einnig flott.... sniðug hugmynd í það minnsta:  Stock Exchange of Visions  


Nú skal'ða gerast.... o þó

Nú er að verða komið ár síðan að ég opnaði þetta blogg.  Á sínum tíma var það ekki síst gert til þess að prufa að segja álit mitt á fréttum, enda var ég þá að vinna að verkefni sem snerti þátttöku almennings í stjórnmálum í víðum skilningi.  Þvert á það sem margir gætu haldið var ástæðan nefnilega ekki sú að dugnaður minn á blogg.bifrost.is hafi valdið því að bloggkerfið þar hafi ekki lengur getað tekið við öllum skrifunum.  Satt að segja voru afköstin þar ekki mikið meiri en hér, en þetta er fjórða færslan hjá mér á þessu tíu mánaða tímabili. (þar af voru tvær þeirra í raun fyrst birtar á hhs.blog.is)

Hvað um það. Ég ætla ekki að vera með nein fyrirheit um einhver gríðarafköst, þó svo að allt geti gerst.  Einfaldlega eingin fyrirheit, áramótaheit eða hortugheit... jú kannski helst það.  Ég er búinn að breyta nafninu á blogginu yfir í "skrifað fyrir skúffuna" og þannig hugsa ég það.  Ég nefnilega skrifa alltaf töluvert af hugleiðingum á tölvuna þó svo að það nái ekki út á netið - sem betur fer.  Sumt af því mætti þó skaðlaust fara beint á netið held ég og þá er þetta ágætis vettvangur til þess.  Hvort einhver les það er svo allt annað mál sem ég skipti mér ekki af.  Ég á þá allavega backup af einhverju úr skúffunni minni hjá mbl.

Að lokum, þá rakst ég á ansi skemmtilegt póstkort í bókabúð hérna í London í dag.  Þegar ég kom heim fann ég myndina af því á netinu líka, svo að ég læt það fylgja.  Það er líka vel við hæfi þar sem þetta snertir Íran rétt eins og fyrsta færslan sem ég setti inn á þetta svæðiTounge Það þarf reyndar að rýna aðeins í myndina til þess að sjá hvað uncle Sam er í raun að spila.

Play it again Sam!


Enron tengslin

Bara svona til að halda því til haga þá á þessi maður sér síðu inni á "Enron: Who's who" síðunum á BBC News:
http://news.bbc.co.uk/hi/english/static/in_depth/business/2002/enron/21c.stm

Var svo sem við öðru að búast?
mbl.is Robert Zoellick verður forstjóri Alþjóðabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimurinn á tímamótum, ekki bara Íslendingar

Það eru ekki bara Íslendingar sem standa á tímamótum í öryggismálum nú á dögum heldur hefur hnattræna hryðjuverkastríðið sem hófst 2001 (The Global War Of Terror) séð til þess að fleiri og fleiri átta sig á að allur heimurinn stendur á tímamótum. 

Er vopnavald rétta leiðin til þess að tryggja öryggi, og öryggi hverra er þá verið að tryggja?  Í hópverkefni sem ég vann að rétt fyrir síðustu jól, einmitt í tilefni þess að herinn var að hverfa af landi brott, færðum við rök fyrir þeirri niðurstöðu að tækifæri Íslands fælist einmitt í því að byggja upp öfluga þróunaraðstoð sem í færu álíka fjármunir og aðrar þjóðir að jafnaði eyða hlutfallslega í hervarnir.  Auk þess að aðstoða fólk sem býr við margfalt minna öryggi en við gerum þá gætum við talað fyrir því á alþjóðavettvangi, af miklum trúverðugleika, að aðrar þjóðir ættu að færa fjárveitingar sínar sem allra mest úr iðnaði, rannsóknum og þjónustu tengdum hernaði yfir í samskonar störf tengd uppbyggingu landa.  Þetta er sú afvopnun sem er raunhæft fyrir stjórnendur landa að standa fyrir án þess að setja atvinnumál í heimalandinu í uppnám og leggja feril sinn í stjórnmálum þannig að veði.

Það er engin ástæða til þess að rústa lönd með sprengjum áður en þau eru byggð upp.  Slíka þjónustu má inna af hendi án þess að til hernaðar komi.  Það er heldur engin ástæða til þess að hræðast um of að veita þjónustuna ókeypis því að þetta eru peningar sem ríki eru nú þegar að eyða og væri eytt á sama hátt en með önnur markmið í huga; í aðrar framleiðsluvörur, aðrar rannsóknir og aðra þjónustu.  Ef hægt er að senda skriðdreka og sprengjur til Bagdad þá er hægt að senda vatnsdælur og verkfæri til afríku fyrir sama pening. Það sem þarf að finna leiðir til og passa er að þjónustan komi almenningi í þeim löndum sem á þurfa að halda til góða. Til rannsókna á því má á þennan hátt veita peningum enda örugglega ekki allt fullreynt í þeim efnum. 

Þau lönd sem eyða yfirgnæfandi meirihluta þess sem eytt er í hermál árlega eru flest frjálslynd lýðræðisríki sem öll greiða atvinnuleysis- og örorkubætur endurgjaldslaust til þeirra borgara sem á þurfa að halda.  Það er því í raun furðulegt að þessi sömu lönd skuli jafn óviljug og raun ber vitni til þess að hjálpa til á heimsvísu öðruvísi en að setja upp ströng skilyrði um endurgreiðslu, og það með vöxtum (eins og Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn gera).  Það er allra hagur að byggja upp þriðjaheimsríkin og gera þeim kleyft að taka þátt í heimsviðskiptum á sínum forsendum og því á heimsbyggðin ekki að láta neitt stoppa sig í því að einhenda sér í það verkefni.  Ef það er gert á þann hátt sem ég hef nefnt hér (og betur er lýst í verkefninu sem sækja má hér) þá verður á tiltölulega stuttum tíma hægt að hætta megninu af þeim hernaðarútgjöldum sem til staðar eru í dag og þróunaraðstoðinni einnig og byrja eðlileg viðskipti með velferðar- og nauðsynjavörur milli allra landa á jafnréttisgrundvelli.  Með þessu er ráðist að rót vandans og hervarnir gerðar að mestu leyti óþarfar og árásarherir eins og nokkur lönd búa yfir í dag gerðir algerlega óþarfir og óæskilegir.

 Ég vona að Íslandi beri gæfa til þess að nota þessi tímamót til að skipta yfir í öryggismálastefnu á borð við þessa; stefnu sem horfir á allt mannkyn í samhengi.

  


mbl.is Íslendingar á tímamótum í öryggismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd að lausn

Ég vil nú bara kasta fram smá hugmynd, því það má mikið til vinna til þess að forða stríði við Írani eins og þessi frétt gefur til dæmis til kynna.

Íranar setja fram réttmæta kröfu um það að ef að þeir eigi að hætta að auðga úran þá skuli aðrar þjóðir gera slíkt hið sama; eitt skuli yfir alla ganga. VIð vitum að þó svo að krafan sé réttmæt þá er hún ekki raunhæf. Við vitum einnig að það er engum til góðs að Íranar geti komið sér upp kjarnorkuvopnum.

Lausnin fælist í endurskipulagningu kjarnorkueftirlitsins. Í dag er stofnun undir Sameinuðu Þjóðunum sem sér um eftirlit með kjarnorkuvinnslu, en það er upp og ofan með það hvort þeir fá að athafna sig með fullnægjandi hætti. Ef dæminu væri snúið við og öll kjarnorkuvinnslan sjálf væri á hendi Sameinuðu Þjóðanna en eftirlitið á hendi landanna sem kjarnorkuverin eru staðsett í, þá væri möguleiki á því að eitt gæti gengið yfir alla og tortryggni yrði eytt. Löndin væru sjálf í eftirlitshlutverki gagnvart alþjóðlegri stofnun sem starfaði inni í þeirra landi og það mundi skila sér í mun skilvirkara eftirliti. Lönd sem vildu nýta sér kjarnorku til raforkuvinnslu í sínu landi mundu gera samning við SÞ um að reka þá vinnslu og farga úrgangsefnum. Stofnunin mundi svo byggja upp kjarnorkuverið og reka það, en ef vinnslu yrði hætt mundi hún að sama skapi rífa allt niður aftur. Stofnunin tæki ekki við neinum skipunum frá yfirvöldum í einstökum löndum heldur aðeins SÞ.


mbl.is Árás gæti flýtt fyrir kjarnorkuvæðingu Írana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband