Guðmundur Ágúst Sæmundsson
Ég er alinn upp á Hvolsvelli. Fékk stúdentspróf af Náttúrufræðibraut og Eðlisfræðibraut í Fjölbrautaskóla Suðurlands og hélt að því loknu til Reykjavíkur. Ég vann við hugbúnaðargerð í c.a. 5 ár ásamt því að þreifa fyrr mér í verkfræðinámi og leita að sjálfum mér. Nú er ég vongóður um að ég sé kominn á sporið, en held samt alltaf áfram að leita. Haustið 2005 fór ég á Bifröst og er kominn með BA gráðu í Heimspeki, Hagfræði og Stjórnmálafræði (HHS) þaðan. Síðasta árið hef ég verið í London í MSc námi sem kallast Globalisation and Development og er við SOAS, University of London.
Ég hef gaman af stjórnmálum en óbeit á pólitík. Með því á ég við að mér finnst miklu skipta að málefni samfélagsins séu í góðum höndum - höndum almennings - en tel að hagsmunapot og flokkadrættir standi í vegi fyrir mörgum góðum hlutum.
Stjórnmálamenningu þessa lands, og annarra, mætti að mínu mati bæta mikið, en til þess held ég að bæði þurfi hugmyndafræðilegar og ekki síður kerfislægar breytinar að eiga sér stað. Það er kominn tími á að leysa úr læðingi og nýta miklu betur hugmyndaauðgi, áhugasemi og kraft almennings á sviði stjórnmálanna. Hér er ég ekki að tala um að almenningur fái að éta úr lófa stjórnmálamannanna með uppstilltum íbúakosningum eða þjóðaratkvæðagreiðslum, heldur að fólki fái leiðir til þess að hafa eðlilegt frumkvæði að málum. Fólk geti í krafti fjöldans lagt fram frumvörp, þingsálykturnartillögur og fyrirspurnir til ráðherra með sama hætti og þingmenn geta, auk þess að geta knúið fram íbúakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur og kosið með beinum hætti um stjórnarskrá. Þar að auki þarf samstarfsvettvang á internetinu þar sem öll þjóðin, þar með talið stjórnvöld, geta unnið að málum í samvinnu fyrir opnum tjöldum.
Ég er að tala um tækifæri en ekki kollvörpun á núverandi kerfi. Þetta væri því einungis viðbót við það sem nú er og legði ekki kvaðir á allan almenning að taka þátt öllum stundum til að verja sína hagsmuni eins og beint lýðræði daglegra þjóðaratkvæðagreiðsla gæti gert. Um þetta skrifaði ég nánar í lokaverkefninu mínu í HHS og hef fullan hug á að koma þessu í höfn í samvinnu við sem flesta.