26.5.2007 | 23:46
Heimurinn á tímamótum, ekki bara Íslendingar
Það eru ekki bara Íslendingar sem standa á tímamótum í öryggismálum nú á dögum heldur hefur hnattræna hryðjuverkastríðið sem hófst 2001 (The Global War Of Terror) séð til þess að fleiri og fleiri átta sig á að allur heimurinn stendur á tímamótum.
Er vopnavald rétta leiðin til þess að tryggja öryggi, og öryggi hverra er þá verið að tryggja? Í hópverkefni sem ég vann að rétt fyrir síðustu jól, einmitt í tilefni þess að herinn var að hverfa af landi brott, færðum við rök fyrir þeirri niðurstöðu að tækifæri Íslands fælist einmitt í því að byggja upp öfluga þróunaraðstoð sem í færu álíka fjármunir og aðrar þjóðir að jafnaði eyða hlutfallslega í hervarnir. Auk þess að aðstoða fólk sem býr við margfalt minna öryggi en við gerum þá gætum við talað fyrir því á alþjóðavettvangi, af miklum trúverðugleika, að aðrar þjóðir ættu að færa fjárveitingar sínar sem allra mest úr iðnaði, rannsóknum og þjónustu tengdum hernaði yfir í samskonar störf tengd uppbyggingu landa. Þetta er sú afvopnun sem er raunhæft fyrir stjórnendur landa að standa fyrir án þess að setja atvinnumál í heimalandinu í uppnám og leggja feril sinn í stjórnmálum þannig að veði.
Það er engin ástæða til þess að rústa lönd með sprengjum áður en þau eru byggð upp. Slíka þjónustu má inna af hendi án þess að til hernaðar komi. Það er heldur engin ástæða til þess að hræðast um of að veita þjónustuna ókeypis því að þetta eru peningar sem ríki eru nú þegar að eyða og væri eytt á sama hátt en með önnur markmið í huga; í aðrar framleiðsluvörur, aðrar rannsóknir og aðra þjónustu. Ef hægt er að senda skriðdreka og sprengjur til Bagdad þá er hægt að senda vatnsdælur og verkfæri til afríku fyrir sama pening. Það sem þarf að finna leiðir til og passa er að þjónustan komi almenningi í þeim löndum sem á þurfa að halda til góða. Til rannsókna á því má á þennan hátt veita peningum enda örugglega ekki allt fullreynt í þeim efnum.
Þau lönd sem eyða yfirgnæfandi meirihluta þess sem eytt er í hermál árlega eru flest frjálslynd lýðræðisríki sem öll greiða atvinnuleysis- og örorkubætur endurgjaldslaust til þeirra borgara sem á þurfa að halda. Það er því í raun furðulegt að þessi sömu lönd skuli jafn óviljug og raun ber vitni til þess að hjálpa til á heimsvísu öðruvísi en að setja upp ströng skilyrði um endurgreiðslu, og það með vöxtum (eins og Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn gera). Það er allra hagur að byggja upp þriðjaheimsríkin og gera þeim kleyft að taka þátt í heimsviðskiptum á sínum forsendum og því á heimsbyggðin ekki að láta neitt stoppa sig í því að einhenda sér í það verkefni. Ef það er gert á þann hátt sem ég hef nefnt hér (og betur er lýst í verkefninu sem sækja má hér) þá verður á tiltölulega stuttum tíma hægt að hætta megninu af þeim hernaðarútgjöldum sem til staðar eru í dag og þróunaraðstoðinni einnig og byrja eðlileg viðskipti með velferðar- og nauðsynjavörur milli allra landa á jafnréttisgrundvelli. Með þessu er ráðist að rót vandans og hervarnir gerðar að mestu leyti óþarfar og árásarherir eins og nokkur lönd búa yfir í dag gerðir algerlega óþarfir og óæskilegir.
Ég vona að Íslandi beri gæfa til þess að nota þessi tímamót til að skipta yfir í öryggismálastefnu á borð við þessa; stefnu sem horfir á allt mannkyn í samhengi.
Íslendingar á tímamótum í öryggismálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 15.1.2008 kl. 20:10 | Facebook
Athugasemdir
Hvernig í ósköpunum getur þróunarhjálp komið í stað öryggisgæslu? Þýðir þetta það að leggja megi niður alla löggæslu ef þeir fjármunir sem í hana fara, yrðu veittir til þróunarhjálpar?
Slík fullyrðing án minnsta rökstuðnings hefur ekkert raunverulegt gildi.
Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 00:30
Ég sé nú þessa fullyrðingu sem þú vísar í hvergi berum orðum í textanum og sé þess vegna ekki ástæðu til þess að svara þeirri framsetningu beint. Því er ekki haldið fram að þróunarhjálp komi í stað öryggisgæslu en því er haldið fram að stórum hluta þeirra peninga sem nú fara í iðnað tengdan hernaði á heimsvísu væri betur varið í þróunaraðstoð (um 2,5% af heimsframleiðslu fóru til hermála árið 2005 eða tæpir 80.000 milljarðar króna, meðan fjarlægt markmið SÞ er að koma þróunaraðstoð í 0,7%). Ísland hefur hingað til ekki lagt fjármagn í neitt sem flokkast til hermála, og er reyndar langt frá 0,7% markinu í þróunaraðstoð, en nú stöndum við frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort svo skuli vera áfram. Það er ekki óeðlilegt að Ísland leggi sitt af mörkum, þó svo að við höfum komist hjá því hingað til, spurningin er bara hvernig við beitum okkur.
Rökin fyrir því að þróunaraðstoð geti aukið öryggi meira en hernaðarviðbúnaður yfir ákveðnum mörkum eru margvísleg og ég get nefnt tvö þeirra sem dæmi. (1) Í þróunarlöndunum deyja árlega um 14 milljónir manna úr hungri, sem jafngildir tæplega allri íslensku þjóðinni í hverri einustu viku. Þetta er gríðarlegt óöryggi sem bræður okkar og systur búa við og það má einmitt bæta með þróunaraðstoð. (2) Félagslegt óöryggi og léleg menntun eru þættir sem saman eru líklegir til þess að leiða til átaka og þessum þáttum má draga úr með þróunaraðstoð. Í skýrslu frá SÞ síðan 2004 er einmitt bent á gildi þróunaraðstoðar sem "langtíma áætlun til forvarna gagnvart borgarastyrjöldum og í þeim tilgangi að fást við aðstæður þar sem hryðjuverk og skipulögð glæpastarfsemi blómstra." Þróunaraðstoð er því einnig ráð til þess að sporna við helstu ógninni sem rætt er um í heiminum í dag, þ.e.a.s. hryðjuverkum.
Þetta snýst um að komast fyrir rót vandans til þess að lágmarka þörfina fyrir að verjast árásum frá hverju öðru. Löggæsla kemur þessu ekkert við, enda lögreglan ekki hlaupin af landi brott svo ég viti til. Hlutverk Íslands í þessu er að mestu leyti táknrænt en ekki minna mikilvægt fyrir það. Peningar okkar eru tiltölulega lítils virði, en trúverðug rödd okkar er mikils virði.
Guðmundur Ágúst Sæmundsson, 27.5.2007 kl. 02:07
Spurningin ,,Er vopnavald rétta leiðin til þess að tryggja öryggi, og öryggi hverra er þá verið að tryggja?'' er uppspretta þessarar spurningar minnar.
Hérna er verið að gefa í skyn að hefðbundnar varnir séu verri til þess ætlaðar að tryggja öryggi lands og þjóðar en þróunarhjálp.
Nú kann þróunarhjálp að breyta einhverju í fátækustu ríkjum jarðar, en hvaða áhrif mun það þá hafa á varnir Íslands?
Ef lagt er til að leggja allan þá fjármuni Íslendinga sem ellegar færu í ytri öryggisgæslu til erlendra aðila, sem ætlað er að útdeila þeim meðal fátækra þegna sinna og það síðan framkæmt. Nákvæmlega hvernig myndi það gera allar ytri varnir óþarfar?
,,Löggæsla kemur þessu ekkert við, enda lögreglan ekki hlaupin af landi brott svo ég viti til.'' Þessi setning bendir til alls nokkurs þekkingarskorts á varnarmálum. Þó það sé vissulega fyrirgefanlegt í ljósi þess að bókakostur bókasafns Háskólans á Bifröst er líklega enn fátæklegra en Þjóðarbókhlöðunnar hvað varnarmál varðar. En það er þó hægt að fá bækur lánaðar milli safna.
Grundvallaratriðið er þó það, að ef menn ætla að rökstyðja eitthvað út frá varnarhagsmunum eða vörnum lands, þá þurfa menn að geta rökstutt hvernig eða sýnt fram á hvernig. Það að skýrsla SÞ bendi til einhvers hefur, satt best að segja, lítið að segja um varnir Íslands beint.
Eða með öðrum orðum, þá þurfa menn að vera nokkuð vel fróðir á sviði varnarmála áður en menn ætla sér að fjalla um þau á háskólastigi.
Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 13:20
Hvaða ástæður liggja að baki þess að þörf er fyrir vörnum, hvers vegna eru öryggismál svona mikilvæg? Er best að reisa háa víggirðingu í kringum húsin okkar ef við óttumst innrás eða er til annar möguleiki? Er ef til vil rót á vandanum?
Þegar staðið er frammi fyrir vandamáli er sorglega oft litið fram hjá ástæðum þess. Með því að draga úr ójöfnuði í heiminum og draga úr öryggisleysi þeirra sem við slíkt búa er jafnframt verið að draga úr líkum þess að þeir beiti örþrifaráðum eins og að ráðast á aðra. Hagfræðin hefur sýnt okkur fram á að það er hægt að auðgast án þess að taka frá öðrum, þó við styðjum aðrar þjóðir til betri lífsskilyrða er ekki þar með sagt að okkar líf verði síðra, þvert á móti, við höfum blessunarlega lagt mercantilismann að baki.
Þróunarmál auka viðskipti á milli þjóða, aukin viðskipti kalla svo á aukin samskipti sem auka svo þekkingu þjóða hverri á annarri. Þekking er lykilatriði því við óttumst það sem við ekki þekkjum.Ég fagna umræðum um öryggis og varnarmál og hvet ALLA til að kynna sér þau og tjá sig um þau sem og öll önnur málefni. Ef einungis sérfræðingar hefðu rétt á að tjá sig og engir aðrir skiptust á skoðunum eða viðruðu hugmyndir sínar er ég hrædd um að illa væri komið fyrir okkur.Ingveldur Björg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 14:41
Þetta er enginn vettvangur til þess að þræta um þessi mál - eða ég nenni því ekki - en ég vil gjarnan betrumbæta hugmyndina með meiri og betri upplýsingum og í samstarfi við sem flesta. Hafir þú eitthvað efnislegt til málanna að leggja Pétur vil ég gjarnan taka það til greina. Ég sé bara ekki hvert sá málflutningur sem þú heldur fram núna á að leiða, eða hvers vegna þú færir ekki fram rök sem mæla gegn því sem þér finnst aðfinnsluvert. Fullyrðingar þínar í síðasta kommenti benda til þess að þú hafir ekkert reynt að setja þig inn í það út á hvað hugmyndin gengur, heldur ákveðið það fyrirfram útfrá eigin fordómum. Sá háttur að furða sig á því sem sagt er í stað þess að andmæla því efnislega er ekki vænlegur til árangurs nema í ódýrum kappræðum. Þetta eru mælskubrögð sem litlum tilgangi þjóna.
Von mín var sú að einhverjir framsýnir menn mundu kveikja á því sem jákvætt er í hugmyndinni og hjálpa mér og hópnum sem vann að þessu við að þróa hana áfram með gagnlegum kommentum. Gagnrýni er mjög jákvæð og sú niðurstaða að hugmyndin gangi ekki upp er ekkert óæskilegri en hin; að þetta gangi upp. Aðalatriðið er að fjalla um hlutina efnislega en ekki með ódýrum aðfinnslum og fordómum í garð viðmælandans. Það væri til dæmis mun heiðarlegra af þér að segja beint út hvernig þú vilt tengja umræðu um löggæslumál því sem hér er rætt um, í stað þess að gefa þér hvað ég á við og álykta að það bendi til þekkingarskorts. Ég á við þekkingarskort að stríða á flestum sviðum, eins og allir, en það er þess vegna sem ég treysti á menn eins og þig, og fleiri góða, til þess að nefna efnislega þau atriði sem ég er að líta framhjá. Ég er lítið fyrir kappræður, meira fyrir rökræður, en mest fyrir að allri leggi sig fram um að leggja sitt af mörkum til góðra mála.
Guðmundur Ágúst Sæmundsson, 27.5.2007 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.