16.2.2008 | 16:09
"Sterkur meirihluti"
Í síðustu alþingiskosningum veltu menn því fyrir sér hvort meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks yrði nógu sterkur. Nú upp á síðkastið hafa ýmsir dregið þá ályktun af hamaganginum í borginni að eins manns meirihluti þar sé ekki nógu sterkur meirihlut. Nú þurfum við "sterkan meirihluta" í borgin heyrist kastað hér og þar.
Ég velti frekar fyrir mér hlutverki meirihluta og hvernig hann lítur á valdumboð sitt. Mér fannst merkilegt hvað þurfti að skipta út miklu af fólki í nefndum og ráðum um leið og kjörnir fulltrúar skiptu liðum upp á nýtt tvisvar sinnum nú með stuttu millibili. Er "hollusta" allra við flokkana en ekki borgarana? Var enginn hæfur til að sitja áfram eða bara ekki af réttum lit?
Svo eru allir sammála meira eða minna um öll mál. Ef menn eru ekki sammála þá virðist í það minnsta algerlega ómögulegt að festa hönd á í hverju ágreiningurinn felst og fá botn í hann. Oft virðist hann bara vera settur upp til að "skapa sérstöðu," og á endanum er kannski eina málið sem augljós ágreiningur er um það að skilgreina og skilja á milli skoðana "okkar" og "þeirra". Það er ágreiningur sem allri fulltrúar þekkja og geta talað fjálglega um - út frá sínu þrönga sjónarhorni.
Hvað er sterkur meirihlut? Og til hvers þarf sterkan meirihluta?
Má ekki eins tala um veikan minnihluta? Til hvers þarf veikan minnihluta?
Er það ekki hin hliðin á sama peningnum? Hvers á veikur minnihluti að gjalda?
Endurspeglar "veikur minnihluti" aldrei skoðanir "meirihluta almennings" í einstökum málum?
Skipta skoðanir meirihluta almennings annars máli, þegar "sterkur meirihluti" er við völd?
Hefur "veikur minnihluti" aldrei á réttu að standa? Eða skiptir það kannski ekki máli hafi hann ekki stuðning almennt séð við fulltrúa sína og heildarstefnu?
Hverjar eru röksemdirnar á bak við meirihluta og minnihluta skiptingu milli kjörinna fulltrúa. Er ekki nóg að vera búin að varpa mengi skoðana alls almennings yfir í lítinn hóp fulltrúa með þeim ófullkomna hætti sem kosningar eru, þurfa þeir svo í þokkabót að mynda klíkur sín á milli? Ég hefði haldið að ein af haldbestu röksemdunum fyrir því að láta lítinn hóp fulltrúa fara með vald borgaranna væri sú að þeir geti á raunhæfari hátt rætt mál sín á milli og komist að sátt um þau.
Það þurfa ekki alltaf að vera tvö mörk á vellinum, hvað þá tvö lið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.